Wednesday, September 29, 2010

Diskó klassík !

Ég sat og beið eftir að rútan sem átti að ferja mig til Belgamo mætti á stöðina.
Það virtust ekki margir ætla að skella sér með mér í þessa merku ferð en þegar ég leit upp úr bókinni tók ég eftir Ítala sem nálgaðist mig. Hann var að sjálfsögðu klæddur í kvartbuxur og við þær hafði hann valið að klæðast glæsilegum pólóbol með sól framan á. Áður en ég vissi af stóð maðurinn fyrir framan mig, otandi mp3 spilaranum sínum að mér. Ég er nokkuð viss um að hann var að reyna að komast að því hvort ég lægi á auka batteríi. Því miður var ég ekki með það á mér í þetta skiptið svo hann var neyddur til þess að halda leitinni áfram. Augu mín rötuðu aftur niður á blaðsíðu bókarinnar. Ung blaðakonan var yfir sig hrifin af manni að nafni Max, draumaprinsinn – kaflinn hefði ekki getað gerst áhrifaríkari og meira spennandi svo ég mátti ekki við fleiri truflunum sem þessum. Seisei nei ;) Það líða þó sennilega ekki nema 10 mínútur þangað til ég verð vör við undarleg hljóð. Hálfgerð ískur sem virðast mynda orð. Ítölsk orð, get nánast svarið það. Ég var tilneydd til þess að líta upp úr bókinni og fresta því örlítið að komast að því hvort kellan næði í þennan Max. Ég tek eftir því að félaginn í kvartbuxunum er mættur aftur. Í þetta skiptið er hann sestur nálægt mér og kominn með mp3 spilarann í eyrun. Illa sáttur með sig. Greinilega einhver sem hefur fórnað batteríum á greyið. Hann virðist vera alveg heillaður af þessu undratæki og lifir sig inn í lögin sem það gefur frá sér. Eftir örlitlar vangaveltur átta ég mig á því að ískrið kemur frá honum. Hann er að syngja með. Sætt. Svo virðist viðlagið skella á og ískrin margfaldast og inn á milli gefur hann frá sér einhverskonar dýpri tóna. Áhrifaríkt með eindæmum. Ég gleymi blaðakonunni og ástarmálum hennar meira að segja í smá stund. Ég er heilluð, ehh.

Ótrúlegt en satt þá átta ég mig á því að þessi Ítali er langt frá því að vera heill í kollinum þegar hann stendur upp og virðist taka nokkur dansspor. Léttur snúningur, tvö skref aftur á bak..ég get ekki meir og opna bókina. Lagið virðist þó taka enda þegar hann gefur frá sér langan fagran tón með ítölsku yfirbragði. Ég get ekki varist það en augu mín leita í áttina að honum. Þarna stendur kauði á miðju gólfinu á rútubiðstöðinni með þrjá áhorfendur fyrir utan mig í týpískri diskó stellingu. Já, við erum að tala um að hann hefur talið viðeigandi að enda lagið með stæl. Vinstri hendin hefur leitað upp, sú hægri er viðeigandi sveigð og mjaðmirnar..æi sleppum þeim. Það er þögn á blessaðri biðstöðinni þangað til ég stend upp og öskra ,, Brava“ . Nei. Hann hins vegar tautar það þegar hann gengur aftur að sætinu sínu. Ég get svarið það, þetta var undarlegt. Skemmtilegt að verða vitni af svona atvikum. Öllu rólegri lög virðast þó taka við hjá honum. Ég verð ekki vör við neina danstakta og í rútunni á leiðinni til Belgamo er hann mun þögullri. Er lífið ekki áhugavert?

Belgamo var æðisleg! Ætli ég láti ekki bara myndirnar tala. XOXO.

Átti í erfiðleikum með að velja á milli - afmælisgjöf handa Sólrúnu..


Monday, September 27, 2010

Átvagl

Klukkan var að nálgast níu þegar ég var komin með ferjumiðann í hendurnar. Dagpassi til
þess að ferðast á milli allra þorpanna sem kúra hér við vatnið Como. Það var þó enn rúmur klukkutími í brottför svo hvað var tilvaldara en að háma í sig kirsuberjaköku á McDonald‘s – kaffihúsinu? Sabine hafði nú einu sinni gefið mér afsláttarmiða á það, afsláttarmiða ber að nota. Gæti varla gerst ógáfulegra og óhollara:) Áður en ég vissi af var átvaglið sest niður, smjattandi á óhollustunni. 

Það virtust fleiri en ég ætla að skoða sig um á vatninu síðasta sunnudag en ég náði að smeygja mér áfram í röðinni og koma okkur, myndavélinni vel fyrir í einum af „hægindastólum“ ferjunnar. Sólin skein svo útisætin virtust tilvalin. Ég gleymdi mér alveg við að skoða, dást og pæla. Í fjöllunum hér er endalaust hægt að koma auga á gamlar kirkjur og íburðamikil hús sem kúra á milli trjánna á toppnum. Vegirnir sjást sjaldnast því fjöllin eru þakin skógi, gerir þetta einhvern veginn allt meira ævintýralegt. Þorpin við vatnið voru æðisleg. Hvert öðru fallegra. Ætlaði aldrei að geta hætt að smella af myndavélinni en inn á milli tók ég þó pásur. Sérstaklega til þess að hlusta á Amerískuhjónin, þrjú pör, sem sátu bakvið mig. Þau virtust ekkert hafa þekkst fyrir ferðina en voru þó öll í því að tengjast og deila lífsreynslum sínum. Ein frúin gerðist meira að segja svo vinaleg að leiðbeina annarri frúnni við myndatökur. Henni fannst hún ekki halda nógu jafnt á myndavélinni, þyrfti að passa upp á að vinstri hendin sigi ekki. Að sjálfsögðu þakkaði þessi byrjandi í myndavélabransanum fyrir leiðbeininguna og spennti hvern einasta vöðva vinstrihandar til þess að myndirnar yrðu nú sæmilegar. Nálægt okkur sátu þó nokkrir Ítalir sem höfðu endalaust gaman af ferðinni. Þeir hlógu og spjölluðu á háunótunum eins og Ítölum er einum lagið. Virðulegur Ameríkaninn, eiginmaður óheppna myndasmiðsins, lét þetta þó fara gríðarlega í taugarnar á sér. Ég þurfti að passa mig að fara ekki að hlæja þegar hann áætlaði að Ítalarnir kynnu einga ensku (sem þeir eflaust gerðu ekki)  og fór að óskapast yfir þessum „endalausu fagnaðarlátum“ í þeim. Konurnar reyndu þó að segja honum að Ítalarnir væru nú bara að skemmta sér en Ameríkanin sá ekki ástæðu fyrir að þeir þyrftu að gera það alla leiðina, ekki á þennan ítalska veg, allavega.  Yndislegt.

Stoppað var við öll þorpin við vatnið þar sem fólk fór út og týndist inn. Isola, eina eyjan í Como er virkilega falleg. Ég stoppaði þó lengst í Bellagio. Tók um fimm klukkustundir í að skoða mig þar um. Þessi dagur reyndist verða dagur átvaglsins því einhvern veginn heilluðu ítölsku sælgætisbúðirnar mig. Elska hvað allt er girnilegt og krúttlegt hér. Svo gaman að skoða allan þennan girnilega mat, kökur og sælgæti og láta sig dreyma..jafnvel smakka inn á milli ;) Búðarmennirnir í sælgætisbúðunum eru líka svo miklar dúllur. Ísinn sem ég keypti mér í Bellagio stóðst þó ekki væntingar, sennilega orðin of vön alltof góðu ísbúðinni í Como. Ljúffeng. Ég skoðaði svo skrúðgarða og kirkjur. Mikið var af fallegum glervörum og tálguðum munum sem ég náttúrulega skoðaði í bak og fyrir eins og mér einni er lagið.  Kannski, hugsanlega, já kannski endaði ég svo á því að koma mér fyrir á bekk við bryggjuna með bók..en eins og ég sagði bara hugsanlega, kannski.

Á heimleiðinni hlotnaðist mér sá heiður að sitja við hliðina á öldrðum Breta á ferðalagi um Ítalíu og vinkonu hans. Þau voru bara snotur. Hann hálf heyrnaskertur og hún tilbúin að endurtaka sig endalaust svo fróðleikurinn frá henni gæti skilað sér til hans. Oftast endaði hann þó á að leiðrétta hana, vissi betur. En þau dáðust af umhverfinu hér sem og ég.  Held við höfum öll átt það sameiginlegt í ferjunni.

Um kvöldið fór ég svo á tónleika í  Como. Þeir voru virkilega góðir og ítalska popptónlistin náði alveg smá til mín, haha. Þegar það fer að dimma hér verða allir Ítalarnir tvöfalt vinalegir og bara gaman að tala við þá með handabendingum og látbragði þar sem fæstir tala ensku. Áhugavert. Þegar tónleikarnir tóku pásu og Guitar hero stríð hófst á sviðinu ákvað ég samt að það væri tími til þess að forða sér heim.  Betra að ná Funicolrínunni heldur en að þurfa að taka taxa eða berjast við villisvín á heimleiðinni. 

Vikan hefur svo liðið alltof of hratt. Eins mér fannst tíminn líða hægt fyrst og ég gæti skoðað allan heiminn á einum degi þá virðist hann vera farinn að líða hraðar. Ég fór í Pilates tíma hér síðasta þriðjudag. Við reyndumst bara verða tvær á þeirri æfingu og mætti seinni konan það seint að byrjandinn ég fékk einkakennslu. Liðug miðaldra kona stóð yfir mér og ítrekaði að ég ætti að fara niður með axlir og kreppa aðra vöðva líkamans. Áhugavert allt saman, fín tilbreyting frá fjallagöngum. Útsýnið úr salnum var líka geðveikt. Já, geðveikt. Á veggnum hékk svo mynd af einhverjum spekingi en ég er ekki búin að ganga svo langt að googla hann og tilbiðja. Á hinsvegar örugglega eftir að líta inn á fleiri æfingar þarna.

Á laugardaginn ringdi. Típískt þar sem ég átti frí í allan daginn. Ég skellti mér samt mygluð og glæsileg í göngutúr, án regnlhlífar. Íslendingurinn ég er ekki vanur svona rigningu og hita svo ég hafði bara gaman þessu. Hins vegar þurfti ég náttúrulega að mæta strák sem ég kannast við hér þegar hann ók fram hjá mér þegar ég var að reyna að hverfa inn í múrvegginn. Hann auðvitað stoppaði og bauð mér far og ég þar með neydd til þess að útskýra fyrir honum að ég væri bara klikkuð í göngutúr..ekki að fara neitt sérstakt. Hefði kannski átt að gera mér upp erindi í búðina eða eitthvað haha? Nei, fínt var þetta. Þegar ég var kominn inn aftur hætti að sjálfsögðu að rigna. Eftir hádegið kíkti ég svo í búðir í Como og keypti mér miða með rútunni til Bergamo. Vaknaði svo fyrir allar aldir í gær og skellti mér með rútunni til Bergamo. Átti æðislegan dag þar. En segji ykkur frá honum við tækifæri.  Held þetta verði notalegur dagur. Ciao:*

Horft yfir Como frá FunicolerínunniEkki amalegt að þurfa að skella sér í sunnudagsmessuna þangað!

Bellagio :)

Brettinn sjálfur ;)

Monday, September 20, 2010

Ítalir, akstur og ökutæki ;)

Þú heyrir bíl nálgast. Það er flautað. Þú gefur þér fimm sekúndur til þess að skima í kringum þig og reyna að finna smugu „inn“ í hlaðna veggina sitthvoru meginn við veginn. Já, þú ert stödd á einbreiðum vegi, með tvístefnu, í fjallaþorpi á Ítalíu. Þú sérð glytta í bílinn og neyðist til þess að sætta þig við að næsta smuga er of fjarri. Þú þrýstir þér upp við vegginn og vonar að ökumaðurinn sé ekki illa upp lagður. Hafðir ekki hugsað þér að enda sem klesst pönnukaka. Til allra lukku reynist rautt ökutækið vera í minni kanntinum og smýgur fram hjá þér. Þú brosir til ökumannsins á meðan tærnar á þér kreppast saman. Þú laumast jafnvel til að telja þær þegar ökutækið hverfur bakvið næstu beygju. Já, tærnar eru enþá tíu svo þú heldur brött áfram, tilbúin að takast á við gamla Landrover trukkinn sem óvænt er kominn upp að þér. Þú getur ekki varist að bölva góða pastanu sem þú hámaðir í þig í hádeginu. Hefðir þú getað sleppt brauðinu á eftir? Þú ert tilneydd til þess að draga inn magann svo tryllitækið strjúkist ekki við þig. Yndislegt.
                                           
Það er upplifun að fylgjast með umferðinni hér á Ítalíu. Flestar göturnar í nágrenni við mig eru einungis áhugaverðar. Þegar bíll nálgast beygju, sem er að sjálfsögðu nánast alltaf blindbeygja ( vegna trjáa, múrveggja eða húsa) þá flautar ökumaðurinn hér nokkrum sinnum til þess að forðast að fá bílinn, sem huganslega er að koma til móts við hann, framan á sig.  Vegirnir í götunum hér eru það mjóir að bílar geta aðeins mæst á 15 km hraða og styðjast þarf, nánast við reglustriku til þess að koma í veg fyrir óþarfa rispur og beyglur. Oft geta þeir þó ekki mæst og þarf því annar bílstjórinn að gefa sig og bakka eftir fíngerðri götunni þangað til hann getur smeygt sér einhversstaðar inn. Ég þarf svo varla að nefna að á þessum sömu götum gengur fólk líka þar sem gangstígar eru frekar sjaldgjæfir í þessum gömlu þorpum. Reiðhjólamenn eru einnig mjög algengir eða vespur á mikilli ferð, en vespur eru þó eina vitið hér ef þú ert mikið einn á ferðinni. Þrátt fyrir slæmar aðstæður keyra lang flestir Ítalir eins og brjálæðingar, reykja og tala í síman á meðan. Svo hver ferð í bíl hér er einstök. Merkilegt hvað framúrakstur er þeim spennandi! Um daginn fórum við í gegnum götu sem við þurftum að leggja hliðarspeglana upp að bílnum, til þess eins að komast í gegn. Að sjálfsögðu mættum við svo bíl sem neyddist til þess að reyna að bakka vegna þess að við vorum á „míni“ bus. Áhugavert allt saman, er farin að skilja afhverju það er ekki ætlast til þess að ég þurfi að keyra hér. Þegar það fer að rökkva er svo notast við ,,blikk-tæknina“ og blikkað með ljósunum fyrir beygju og í beygjunni. Þannig er reynt að koma í veg fyrir óþarfa samakstur.  Snilld.

Dæmi um tvístefnu !

Verslunargata, full af fólki og tvístefnu :)
Þrátt fyrir þröngar götur kjósa samt þó nokkrir að keyra á þessum lúxus kerrum. (fyrir pabba;) )
Þetta er nú samt algjört krútt..þó það sé sjaldan spes að mæta því hér:*

Þetta var mitt fyrsta og sennilega síðasta "bíla-blogg" ;)
XOXO ;) :*