Monday, September 27, 2010

Átvagl

Klukkan var að nálgast níu þegar ég var komin með ferjumiðann í hendurnar. Dagpassi til
þess að ferðast á milli allra þorpanna sem kúra hér við vatnið Como. Það var þó enn rúmur klukkutími í brottför svo hvað var tilvaldara en að háma í sig kirsuberjaköku á McDonald‘s – kaffihúsinu? Sabine hafði nú einu sinni gefið mér afsláttarmiða á það, afsláttarmiða ber að nota. Gæti varla gerst ógáfulegra og óhollara:) Áður en ég vissi af var átvaglið sest niður, smjattandi á óhollustunni. 

Það virtust fleiri en ég ætla að skoða sig um á vatninu síðasta sunnudag en ég náði að smeygja mér áfram í röðinni og koma okkur, myndavélinni vel fyrir í einum af „hægindastólum“ ferjunnar. Sólin skein svo útisætin virtust tilvalin. Ég gleymdi mér alveg við að skoða, dást og pæla. Í fjöllunum hér er endalaust hægt að koma auga á gamlar kirkjur og íburðamikil hús sem kúra á milli trjánna á toppnum. Vegirnir sjást sjaldnast því fjöllin eru þakin skógi, gerir þetta einhvern veginn allt meira ævintýralegt. Þorpin við vatnið voru æðisleg. Hvert öðru fallegra. Ætlaði aldrei að geta hætt að smella af myndavélinni en inn á milli tók ég þó pásur. Sérstaklega til þess að hlusta á Amerískuhjónin, þrjú pör, sem sátu bakvið mig. Þau virtust ekkert hafa þekkst fyrir ferðina en voru þó öll í því að tengjast og deila lífsreynslum sínum. Ein frúin gerðist meira að segja svo vinaleg að leiðbeina annarri frúnni við myndatökur. Henni fannst hún ekki halda nógu jafnt á myndavélinni, þyrfti að passa upp á að vinstri hendin sigi ekki. Að sjálfsögðu þakkaði þessi byrjandi í myndavélabransanum fyrir leiðbeininguna og spennti hvern einasta vöðva vinstrihandar til þess að myndirnar yrðu nú sæmilegar. Nálægt okkur sátu þó nokkrir Ítalir sem höfðu endalaust gaman af ferðinni. Þeir hlógu og spjölluðu á háunótunum eins og Ítölum er einum lagið. Virðulegur Ameríkaninn, eiginmaður óheppna myndasmiðsins, lét þetta þó fara gríðarlega í taugarnar á sér. Ég þurfti að passa mig að fara ekki að hlæja þegar hann áætlaði að Ítalarnir kynnu einga ensku (sem þeir eflaust gerðu ekki)  og fór að óskapast yfir þessum „endalausu fagnaðarlátum“ í þeim. Konurnar reyndu þó að segja honum að Ítalarnir væru nú bara að skemmta sér en Ameríkanin sá ekki ástæðu fyrir að þeir þyrftu að gera það alla leiðina, ekki á þennan ítalska veg, allavega.  Yndislegt.

Stoppað var við öll þorpin við vatnið þar sem fólk fór út og týndist inn. Isola, eina eyjan í Como er virkilega falleg. Ég stoppaði þó lengst í Bellagio. Tók um fimm klukkustundir í að skoða mig þar um. Þessi dagur reyndist verða dagur átvaglsins því einhvern veginn heilluðu ítölsku sælgætisbúðirnar mig. Elska hvað allt er girnilegt og krúttlegt hér. Svo gaman að skoða allan þennan girnilega mat, kökur og sælgæti og láta sig dreyma..jafnvel smakka inn á milli ;) Búðarmennirnir í sælgætisbúðunum eru líka svo miklar dúllur. Ísinn sem ég keypti mér í Bellagio stóðst þó ekki væntingar, sennilega orðin of vön alltof góðu ísbúðinni í Como. Ljúffeng. Ég skoðaði svo skrúðgarða og kirkjur. Mikið var af fallegum glervörum og tálguðum munum sem ég náttúrulega skoðaði í bak og fyrir eins og mér einni er lagið.  Kannski, hugsanlega, já kannski endaði ég svo á því að koma mér fyrir á bekk við bryggjuna með bók..en eins og ég sagði bara hugsanlega, kannski.

Á heimleiðinni hlotnaðist mér sá heiður að sitja við hliðina á öldrðum Breta á ferðalagi um Ítalíu og vinkonu hans. Þau voru bara snotur. Hann hálf heyrnaskertur og hún tilbúin að endurtaka sig endalaust svo fróðleikurinn frá henni gæti skilað sér til hans. Oftast endaði hann þó á að leiðrétta hana, vissi betur. En þau dáðust af umhverfinu hér sem og ég.  Held við höfum öll átt það sameiginlegt í ferjunni.

Um kvöldið fór ég svo á tónleika í  Como. Þeir voru virkilega góðir og ítalska popptónlistin náði alveg smá til mín, haha. Þegar það fer að dimma hér verða allir Ítalarnir tvöfalt vinalegir og bara gaman að tala við þá með handabendingum og látbragði þar sem fæstir tala ensku. Áhugavert. Þegar tónleikarnir tóku pásu og Guitar hero stríð hófst á sviðinu ákvað ég samt að það væri tími til þess að forða sér heim.  Betra að ná Funicolrínunni heldur en að þurfa að taka taxa eða berjast við villisvín á heimleiðinni. 

Vikan hefur svo liðið alltof of hratt. Eins mér fannst tíminn líða hægt fyrst og ég gæti skoðað allan heiminn á einum degi þá virðist hann vera farinn að líða hraðar. Ég fór í Pilates tíma hér síðasta þriðjudag. Við reyndumst bara verða tvær á þeirri æfingu og mætti seinni konan það seint að byrjandinn ég fékk einkakennslu. Liðug miðaldra kona stóð yfir mér og ítrekaði að ég ætti að fara niður með axlir og kreppa aðra vöðva líkamans. Áhugavert allt saman, fín tilbreyting frá fjallagöngum. Útsýnið úr salnum var líka geðveikt. Já, geðveikt. Á veggnum hékk svo mynd af einhverjum spekingi en ég er ekki búin að ganga svo langt að googla hann og tilbiðja. Á hinsvegar örugglega eftir að líta inn á fleiri æfingar þarna.

Á laugardaginn ringdi. Típískt þar sem ég átti frí í allan daginn. Ég skellti mér samt mygluð og glæsileg í göngutúr, án regnlhlífar. Íslendingurinn ég er ekki vanur svona rigningu og hita svo ég hafði bara gaman þessu. Hins vegar þurfti ég náttúrulega að mæta strák sem ég kannast við hér þegar hann ók fram hjá mér þegar ég var að reyna að hverfa inn í múrvegginn. Hann auðvitað stoppaði og bauð mér far og ég þar með neydd til þess að útskýra fyrir honum að ég væri bara klikkuð í göngutúr..ekki að fara neitt sérstakt. Hefði kannski átt að gera mér upp erindi í búðina eða eitthvað haha? Nei, fínt var þetta. Þegar ég var kominn inn aftur hætti að sjálfsögðu að rigna. Eftir hádegið kíkti ég svo í búðir í Como og keypti mér miða með rútunni til Bergamo. Vaknaði svo fyrir allar aldir í gær og skellti mér með rútunni til Bergamo. Átti æðislegan dag þar. En segji ykkur frá honum við tækifæri.  Held þetta verði notalegur dagur. Ciao:*

Horft yfir Como frá FunicolerínunniEkki amalegt að þurfa að skella sér í sunnudagsmessuna þangað!

Bellagio :)

Brettinn sjálfur ;)

5 comments:

 1. Skemmtilegt að lesa bloggin frá þér, það er klárt mál að þú lifir í draumi ;) Gangi þér vel ;*

  Kv. Íris

  ReplyDelete
 2. Vááá.. Major-sakn hér í gangi.. og líka smá öfund eins og vanalega ;)
  Æðislegar myndir :*

  ReplyDelete
 3. Yndislegt :-D
  ég vil fara í svona siglingu þegar ég kem ;-)
  Ástar og saknaðar..
  Móða gamla

  ReplyDelete
 4. Frábærar myndir :-) Gaman að lifa í gegn um þig ;-)
  Knús frá mömmunni þinni.

  ReplyDelete
 5. Svo gaman að kíkja á bloggið þitt Dóra mín og sjá hvað þú ert að bralla :) Frábærar myndir, held að þú verðið að setja það á to do listann að fara í messu í þessari fjallakirkju!
  Knús frá Nönnu frænku

  ReplyDelete