Monday, October 25, 2010

Hoof prints in the sand...lovelydovely.
Ég táraðist. Ég vil meina að þrýstingurinn af sökum kjánalegsbrossins sem hafði komið sér vel fyrir á andlitinu á mér hafi orsakað þessa óvæntu vökvaframleiðslu. Þið vitið munnurinn er svo nálægt augunum á okkur mannfólkinu að brosvöðvarnir mínir hafa þrýst á tárin mín sem kúrðu rétt fyrir ofan kinnarnar á mér. Já þetta var örugglega eitthvað svoleiðis. Allavega þarna stóð ég við innganginn á Cavalli a Milano brosandi með glampandi augu. Hestalyktin var æðisleg. Hún ein og sér var þess virði  að ég hafði þrætt lestarstöðvar og þekkti Metro núna jafn vel og hægra handarbakið á mér. 

Ferðalagið gekk ekki erfiðlega fyrir sig. Ég einfaldlega elti kúrekahattana og indjánavestin! Verð þó að viðurkenna að hugur minn vék í örlitla stund frá takmarkinu, að komast á þessa hestamannasamkomu í Milanó þegar ótrúlega náin feðgin stóðu við hliðina á mér í „metróinu“. Ég er vön kærleika og allt það, en þau voru öðruvísi. Stúlkan var örugglega 16 ára og pabbi hennar var alltaf að kyssa hana á kinnina og hún að nudda nefinu í hann. Sætt. Þegar svo þrjú sæti losnuðu og kallinn tilti sér niður hlammaði hún sér að sjálfsögðu í fangið á honum. Óþarfi að vera að setjast í laus sæti. Þau töluðu ekki saman heldur ,,hjöluðu“. Nei, við erum ekki að tala um kærustustubba því móðirin sat víst í horninu. Ég áttaði mig þó ekki á því fyrr en þau voru komin á leiðarenda og ég neydd til þess að skilja við þessa hamingjusömu fjölskyldu þar sem teamið og mamman yfirgáfu svæðið.

Þetta var í alla staði frábær dagur. Allstaðar var eitthvað um að vera og ég fylgdist með allt frá kappreiðum að grunntamningu. Ég er þó enþá ástfangnari af elsku íslenska hestinum okkar en þessir nýju huge félagar mínir eru einnig glæsilegir. Það verður seint af þeim tekið. Ég gleymdi mér bókstaflega við að fylgjast með öllum sýningunum sem minntu einna helst á dans. Búningarnir voru hver öðrum áhugaverðri og hestar jafnt og knapar glæsilegir.  

Ég gæti skrifað stutta bók um leikreglur ,,Horseball“ en ég fylgdist með tveimur leikjum þarna yfir daginn. Stór skemmtileg íþrótt en ég hafði virkilega gaman af leik Ítala gegn Austurríki. Í stuttu máli þá er leikurinn blanda af handbolta og körfubolta en fer fram á hestum en boltinn á að ganga á milli leikmanna og komast réttu megin, í „körfuna“. Mikið gekk á og skemmtilegt að fylgjast með fimi knapa og hesta. Dómarinn vakti líka athygli mína sem sat einnig hest og reyndi að fylgja hröðum leiknum eftir;) Ég held að uppáhaldið mitt hafi verið þegar boltinn féll í gólfið og knaparnir þurftu að láta sig síga niður til þess að grípa hann, allt á mikilli ferð! Taumurinn var einnig bundinn við annan fótinn á þeim svo þeir gætu stýrt hestinum á meðan þeir væru með boltann í höndunum. Já áhugavert. Uppgefin kom ég mér svo heim alsæl. 

Í gær hefði ég líka tárast hefði ég ekki klárað kvótann deginum áður. Ég fór sem sagt með Roberto og krökkunum á fótboltaleik þar sem Elia var að keppa, rétt fyrir utan Como. Veðrið leit ekkert sérstaklega út en það var fremur kalt svo af einhverjum ástæðum tók ég ekki myndavélina með. Er orðin óþægilega háð henni og að sjálfsögðu var þessi fótboltavöllur staðsettur rétt fyrir utan þorpið svo ég var allt í einu stödd út í sveit. Ég tók svo litla Noa með mér í smá skoðunarleiðangur sem endaði á bóndabæ. Ohh tár. Hvar var myndavélin? Bóndabærinn var ævintýri. Heimilisfólkið gat ekki litið meira út eins og hinir „típísku“ ítölsku bíómyndabændur. Á bænum var einhverskonar gistiþjónusta svo þau kiptu sér ekkert upp við okkur Noa þegar við trítluðum þarna á milli útihúsanna. Kýrnar höfðu það náðugt úti, hænurnar gögguðu, hundar geltu, póní hestar kúrðu sig upp við húsveggina og síðast en ekki síst þá var allt stútfullt af reiðhestum. Verið var að leggja á og mig verkjaði í hjartað, þarna vildi ég verða eftir. Útihúsin sem og byggingin sem ég held að hafi verið heimilishúsið voru þakin vafningsjurtum. Æi ég var stödd í ævintýri.

Þegar ég var svo rétt hætt að snökta fórum við í mat til frænku Roberto en hún og eiginmaður hennar bjuggu auðvitað á dýrlegum stað! Þorpi  hinum meginn við Como þar sem göturnar gætu ekki hafa verið þrengri og lækur rann í gegn. Húsið þeirra æðislegt. Veggirnir í stofunni þaktir bókahillum og stórum málverkum. Arininn snotur og sófarnir klæddir blómaáklæði. Ég kýs svo að svekkja mig ekki meira á þessu myndavélaleysi með því að velta garðinum aftur fyrir mér, hann var fallegur. Í staðinn kúrði ég mig niður í blómaáklæðið og skoðaði ljósmyndabækur, bækur um listamenn og  Jackie Onassis. Ohh elsku Jackie heillaði mig í fullkomnun sinni.

Annars má ég ekki gleyma að minnast á matinn. Hann var að sjálfsögðu æðislegur, fjögurra rétta máltíð og hamingja.

Í dag hef ég þó aðallega barist við reghlíf og stundað nám í ítölsku. Veðrið var langt frá því að vera heillandi þegar ég skellti eyrnabandinu yfir eyrun á mér og lagði af stað í hálftíma göngu mína í skólann. Það rigndi en Mary Poppins fílingurinn entist ekki lengi þegar vindhviða stútaði regnhlífinni minni.. ehh regnhlíf ítölsku fjölskyldu minnar. Í fyrsta skiptið sem ég nota regnhlíf hér og ég skila henni ekki einu sinni til baka þar sem hún fór bara í næstu ruslatunnu. Gjörsamlega ónýt. Á þessum tímapunkti átti ég þó eftir að ganga í 20 mínútur og mætti glæsilega útlítandi í tímann. Greyið húsvörðurinn benti mér á ofn á ganginum ef ég vildi hlýja mér haha.  Á heimleiðinni hætti ég að telja allar þær ónýtu regnhlífar sem urðu á vegi mínum, var grínlaust komin yfir 30 áður en ég mætti ruslaköllunum með fullan pall af einungis regnhlífum. Þá var ég tilbúin að brosa í gegnum rigninguna enda bara spauglegt að verða vitni af því þegar saklausir regnhlífaeigendur þurftu að kveðja gersemarnar..með viðeigandi tilþrifum..

Ciao:*

5 comments:

 1. Amazing shoots! I love your photos :)

  http://vicissitudinilombarde.blogspot.com/

  ReplyDelete
 2. Nei, sorrý. Ég bara get ekki ýtt á ljúffengt þar sem það er alltof mikið af hestamyndum þannig þú færð bara snoturt í staðinn!
  Skelltirðu þér samt ekki örugglega með í línudansinn? ;)

  ReplyDelete
 3. Vááá...like á kúrekahattana:) og váá bara þetta allt!

  Ég sé bóndabæjinn alveg fyrir mér:) alveg í hyllingum!

  Finnst þú hefðir átt að purfa einn huge félagann samt;)

  ReplyDelete
 4. Ohh thanks ! I also love yours ;)

  Sólrún .. haha jú bara gat ekki staðist þessar kúrekarsveiflur! Hugsaði reyndar til þín þegar ég var að detta í kantrífílinginn;),, Meira að segja Sólrún hefði kunnað að meta þetta" hugsaði ég sko.. haha.

  Ásta.. sko ég prófaði að setjast á bak á einum stæðilegum þarna en gat ekkert fengið að skoppast. Það telst sem hálft! Snerti líka milljón og 6 póní og 2 asna..svo það er næstum því hálft. Svo saman er þetta sirka eitt? Held ég;)

  ReplyDelete
 5. ójá....samþykki það;)

  ReplyDelete