Sunday, October 10, 2010

Life is bliss, taste it..


Datt inn á þessa æðislegu kóræfingu! Upplifun.


Svissnensk skvísa!















Snúsa í korter í viðbót? Korter til eða frá breytir ekki svo miklu. Hálftíma seinna rumska ég. Get ekki sagt að á þeim tímapunkti hafi mér þótt ákvörðun mín kvöldinu áður að vakna fyrir 7 næsta morgun og skella mér með lest til Sviss - Lugano, gríðarlega gáfuleg. Engu að síður hef ég mig út úr dyrunum á þrjóskunni einni..í bland við ævintýralöngun. Þrátt fyrir múslíið sem ég gúffaði í mig er ég neydd til þess að sætta mig við að ég rumska ekki almennilega fyrr en að ganga níu. Þá búin að ganga í hringi í Como að leita að lestarstöðinni. Ég get frætt ykkur um það, mér til mikillar ánægju að ég hafði komið á þessa lestarstöð áður og farið frá henni og til baka fótgangandi. Hins vegar hafði ég tekið þá gáfulegu ákvörðun þarna í bítið að fylgja bæjarkortinu, það myndi vísa mér á stöðina, styðstu leiðina. Með aðeins annað augað opið virðist ég hafa gægst á kortið, séð stórt tákn á nánast miðju kortinu um að þar væri staðsett lestarstöð og ákveðið að fylgja veginum að henni, en hann lá inn í miðjan bæ. Á þeirri stundu hefur mér örugglega þótt þessi glæsilega leið á stöðina tilvalin enda að reyna að forðast múslimann sem tók upp á því að verða einum of áhugasamur um að ná sambandi við mig. Ég ætti ekki að ramba á hann á þessari leið. Gleði, á þeim tímapuntki. 

Skil ekki ennþá hvað ég var að spá þar sem lestarstöðin sem ég ætlaði mér á, var uppi í hæðinni, en ekki á þeim stað sem kortið sýndi mér. Það eru tvær lestarstöðvar hér í Como. Önnur er nánast alveg við vatnið og hin ofar í hæðinni. Hefði ég bara haft bæði augun opin. Einum og hálfum tíma seinna, orðin örlítið pirruð enda búin að átta mig á því að ég væri ekki að fara að finna þessa stöð á jafnsléttu og búin að þurfa að sætta mig óþarflega oft við þá staðreynd að ég var að ganga í hringi, ákveð ég að líta aftur á þetta kort. Sökum birtuskilyrða á þeim tímapunkti neyðist ég til þess að opna bæði augun og ,,bææænk“ blasir ekki krúttlega lestarstöðin, sem ég var að leita að, við mér hægra megin á kortinu. Undarleg byrjun á degi og ég átta mig ekki ennþá á því hvar ég var stödd í heiminum þarna! Allavega ekki í Como. Ég strunsa því á stöðina og reyni að láta pirringin verða eftir.  

Á lestarstöðinni þarf ég svo að tyggja ofan í mig þá staðreynd að ég hafði misst af lestini til Lugano og 45 mínútur í þá næstu. Frábært. Á leið minni að brautarpallinu rekst ég á þennan líka girnilega sjálfsala. Ávaxtasafinn kallar á mig og sveitt eftir að hafa þrætt allan bæinn seilist ég eftir peningaveskinu. Lítið sem ekkert klink í því en dýrið tekur við seðlum. 5 evrur smjúga auðveldlega inn í það en af einhverjum ástæðum vill safinn ekki skila sér til mín. Fremur óþrifalegur maður reynir að hjálpa mér en það breytir litlu. Anda inn, anda út. Þetta verður æðislegur dagur. Ég enda því á því að yfirgefa sjálfsalan rúmum 800 kr fátækari. Roberto fræðir mig um það um kvöldið að í einhverri könnun sem gerð var hér á Ítalíu kom í ljós að í 40% tilvika virka þessir sjálfsalar ekki hér, heldur eru bara peningaplott. Ljúft:*

Lugano var hins vegar æðisleg. Þetta er virkilega hreinn staður og eitthvað notalegt við að fylgjast með blönduðu mannlífinu þarna. Gaman að sjá að skilti á ítölsku og þýsku eru út um allt í bland. Ég þræði markaði á torginu og skoða yndislegar búðir. Gjörsamlega gleymdi mér. Þegar ég svo dett inn á útsölu í H&M gleymi ég ekki aðeins sjálfri mér heldur líka Canon myndavélinni minni inni í einum mátunarklefanum. Þegar ég svo kem aðra ferð mína í mátunarklefann með full fangið af flíkum ranka ég við mér og sé að myndavélin er ekki um hálsinn á mér. Án þess að anda næ ég að stama ,, camera“ við starfsmanninn þarna sem mér til mikillar ánægju brosir og færir mér hana. Óguð. Ég skalf. Skiljanlega.  Ég enda þó á því að ganga út úr H&M með sætan grán poka og myndavélina um hálsinn.

Þarf ég svo eitthvað að lýsa fyrir ykkur ekta súkkulaðibúðunum í Lugano? Svissnekst súkkulaði á víst að vera sér á báti og það er æðislegt. Ég splæsti í nokkrum molum og frá hvítu upp í dökka kolamola, unaður! Ég gæti staðið á miðju gólfinu í þessum sælkerabúðum og fengið vatn í munninn, með lokuð augun. Súkkulaði ilmurinn er svo sterkur að hann umlykur mann allan. Kíki þangað aftur einn daginn,- ákveðið. Ótrúlegt en satt fer það nefnilega þannig að enginn stoppar mig í lestinni til Lugano eða til baka til þess að kanna miðann minn eða skilríki. Miðinn gildir hins vegar í mánuð svo ég er á leiðinni aftur, frí ferð.

Merkilegt nokk þá enda ég svo heima í Brunate, skelli mér í sturtu og fer niðrí Como til þess að hitta Giuliu. Við röltum um bæjinn og fáum okkur pizzasneið. Svoo er brunað til Erba þar sem við hittum Luca og fleiri æðislega krakka. Kíktum á bar þar og enduðum svo í bílskúrnum heima hjá Luca að spila pink ponk með glæsilegum tilþrifum í bland við að kjassa æðislegu fallegu hundana hans! Svo elska þau öll reggí tónlist svo við erum að tala um að ég þurfi að skella mér með þeim í reggí partý, að dansa „reggí“ ;)

Ciao sætu sykurfroður:*

5 comments:

  1. váá hvað allt er flott þarna!
    Það er geðveikt gaman að lesa bloggið þitt og ekkert smá flottar myndir!
    Hafðu það gott ;)

    Kveðja Hafrún G

    ReplyDelete
  2. Geggjað!!
    knús - Móða

    ReplyDelete
  3. Thessar myndir thinar verda bara flottari og flottari!

    ReplyDelete
  4. Frekar snotur bær! Ég hefði sko verið til í eins og 14 súkkulaðimola haha ;)

    ReplyDelete
  5. Æi þakka þér fyrir Hafrún mín:* :)

    Gjööðveikt Móða mín;)

    Paradísarfugl - þetta verður ekkert auðveld keppni! ..en þakka þér fyrir :)

    Sólrún.. er nokkuð viss um að við hefðum borðað 14 súkkulaði mola, hefðir þú verið hér með mér!

    ReplyDelete